„Ég hafði ekki einu sinni þorað að láta mig dreyma um að geta farið aftur í skóla,“ segir hin 16 ára gamla Amine frá Madagaskar. Amine er ein þeirra stúlkna sem njóta góðs af samstarfi lyfjafyrirtækisins Alvogen og UNICEF á Íslandi.
„Ég hafði ekki einu sinni þorað að láta mig dreyma um að geta farið aftur í skóla,“
segir hin 16 ára gamla Amine frá Madagaskar.
Amine er ein þeirra stúlkna sem njóta góðs af samstarfi lyfjafyrirtækisins Alvogen og UNICEF á Íslandi.
Alvogen hefur meðal annars styrkt baráttu UNICEF fyrir bættri menntun barna á Madagaskar sem er eitt fátækasta ríki heims.
Þar er unnið að því að tryggja skólagöngu barna sem búa við mikla félagslega erfiðleika og þá sérstaklega skólagöngu stúlkna. Eins og víða um heim hallar á stúlkur á Madagaskar þegar kemur að tækifærum til menntunar.
180 börnum gert kleift að ganga í skóla
Alvogen hefur verið öflugur styrktaraðili UNICEF á Íslandi frá árinu 2012 og hafa starfsmenn fyrirtækisins um allan heim einnig styrkt UNICEF með framlögum sínum og söfnun í gegnum góðgerðasjóðinn Better Planet.
Með fjárstuðningi Alvogen og starfsmanna fyrirtækisins í yfir 30 löndum hefur UNICEF á Madagaskar byggt þrjú kennsluhús, fullbúin innanstokksmunum og kennslugögnum og veitt nemendum nauðsynleg námsgögn.
Hvert kennsluhús er auk þess með kynskiptri salernisaðstöðu sem er sérstaklega mikilvægt fyrir skólagöngu stúlkna.
Árlega munu 180 börn njóta góðs af þessari uppbyggingu. Það er sambærilegt við nemendafjölda í meðalstórum grunnskóla á Íslandi.
Menntun bætir líf og afkomu barna
„Ég mun gera allt sem ég get til að nýta þetta tækifæri til fulls og ég vona að einn góðan veðurdag muni barnið mitt einnig hljóta svona tækifæri,“
segir Amine sem þurfti að hætta námi þegar hún varð barnshafandi.
Eins og önnur börn á Madagaskar veit hún að menntun bætir framtíðarmöguleika hennar verulega og því er hún afar þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri.
Hún veit líka vel að menntuð stúlka er betur í stakk búin til að sjá börnum sínum farborða og verja þau gegn alls kyns sjúkdómum.
Það er okkur mikið gleðiefni að Alvogen mun áfram vinna með UNICEF að því að efla tækifæri stúlkna til menntunar enn frekar og auka gæði kennslunnar á Madagaskar.