Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi ekki komist áfram í 16 liða úrslit á HM í þetta sinn þá skilaði gengi liðsins á mótinu mikilvægum framlögum fyrir börn í neyð. HM áskorun Alvogen og UNICEF safnaði heilum 8 milljónum í áheitum á landsliðið.
Fyrir þá upphæð fást 414 leikjakassar fullir af leikföngum og námsgögnum sem notuð verða á barnvænum svæðum UNICEF um allan heim. En hugmyndin með HM áskoruninni var að sameina leik og gleði fótboltans og réttindi barna til að stunda tómstundir og leika sér í öruggu umhverfi.
Alvogen hefur verið dyggur samstarfsaðili UNICEF á Íslandi í fjölda ára og meðal annars styrkt menntaverkefni á Madagaskar, neyðaraðgerðir UNICEF á Sahel svæðinu í Afríku og staðið fyrir styrktartónleikum fyrir börn í Nepal eftir mannskæðan jarðskjálfta þar í landi.