Skip Navigation

HM áskorun Alvogen og Unicef safnaði 8 milljónum í áheitum á landsliðið

Charity
28 June 2018

Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi ekki komist áfram í 16 liða úrslit á HM í þetta sinn þá skilaði gengi liðsins á mótinu mikilvægum framlögum fyrir börn í neyð. HM áskorun Alvogen og UNICEF safnaði heilum 8 milljónum í áheitum á landsliðið.

Fyrir þá upphæð fást 414 leikjakassar fullir af leikföngum og námsgögnum sem notuð verða á barnvænum svæðum UNICEF um allan heim. En hugmyndin með HM áskoruninni var að sameina leik og gleði fótboltans og réttindi barna til að stunda tómstundir og leika sér í öruggu umhverfi.

„Þetta var ótrúlega fallegt framtak og gerði það enn meira spennandi að fylgjast með leikjunum. Við erum ótrúlega stolt af strákunum sem börðust eins og hetjur og gleðjumst yfir því að þátttaka þeirra á stórmótinu hjálpi börnum sem búa í flóttamannabúðum eða á hamfarasvæðum. Strákarnir okkar útveguðu því börnunum okkar mikilvægan stuðning við erfiðar aðstæður. Samstarfsfólk okkar á vettvangi skilar góðum kveðjum og hafa lýst því hversu fallegt það er að Ísland styðji réttindi barna með þessum hætti.“

Bergsteinn Jónsson

Framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi

Alvogen hefur verið dyggur samstarfsaðili UNICEF á Íslandi í fjölda ára og meðal annars styrkt menntaverkefni á Madagaskar, neyðaraðgerðir UNICEF á Sahel svæðinu í Afríku og staðið fyrir styrktartónleikum fyrir börn í Nepal eftir mannskæðan jarðskjálfta þar í landi.