Nýtt Hátæknisetur systurfyrirtækjanna Alvogen og Alvotech opnaði formlega þann 3. júní 2016 við hátíðlega athöfn í Vatnsmýri. Innan setursins verður unnið að þróun og framleiðslu líftæknilyfja. Þau lyf sem nú eru í þróun eru háþróuð stungulyf sem meðal annars eru notuð við meðferð krabbameins- og gigtarsjúkdóma. Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, Eef Schimmelpennink forstjóri Alvotech og Jón Atli Benediktsson rektor héldu ræður við athöfnina og lofuðu útkomuna og þá glæsilegu vísindaaðstöðu sem orðin er til innan Vísindagarða Háskóla Íslands.
„Þetta byrjaði í raun og veru fyrir 15 árum. Þá kviknaði hugmyndin að byggja upp líftæknifyrirtæki og vonirnar voru að gera það á Íslandi. En síðan þá hefur tíminn liðið og bransinn er í raun að stækka og vaxa mikið og líftæknilyf að verða stærstu lyf í heiminum í dag. Okkur fannst rétti tíminn vera kominn, fyrir tveimur árum, og þá byrjuðum við. Og hér erum við í dag og hefur gengið vel,“
Lyfjafyrirtækið Alvogen hóf starfsemi á Íslandi árið 2010 og nú starfa um 160 háskólamenntaðir sérfræðingar hjá systurfyrirtækjunum hér á landi. Heildarfjárfesting Alvotech á sviði líftæknilyfja verður um 500 milljónir evra, 75 milljarðar króna, á næstu árum, þar með talin fjárfesting á fullbúnu húsi, um 8 milljarðar króna.