Skip Navigation

Fuji Pharma fjárfestir í Alvotech fyrir 6.2 milljarða króna

Business
17 December 2018

Japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma hefur fjárfest í Alvotech fyrir um 6.2 milljarða króna (50 milljónir Bandaríkjadala) en um er að ræða 4.2% eignarhlut í fyrirtækinu. Alvotech og Fuji Pharma tilkynntu nýlega um samstarf þar sem það fyrrnefnda þróar og framleiðir lífæknilyf fyrir Japansmarkað, sem er þriðja stærsta markaðssvæði heims. Innkoma Fuji Pharma í hluthafahóp Alvotech mun styðja enn frekar við samstarf fyrirtækjanna á næstu árum og markaðssetningu líftæknilyfja um allan heim.

 

Róbert Wessman, stofnandi Alvotech og forstjóri Alvogen, segir ánægjulegt að fá nýjan fjárfesti í öflugan hóp hluthafa fyrirtækisins. „Það eru aðeins fimm ár síðan við tókum skóflustungu að nýju hátæknisetri í Vatnsmýrinni. Á skömmum tíma hefur fyrirtækið byggt upp verðmætt lyfjasafn líftæknilyfja, ráðið til sín um 250 vísindamenn, reist eina bestu lyfjaverkmiðju fyrir líftæknilyf í heiminum og gert samstarfssamninga við stór lyfjafyrirtæki í Kína og Japan um sölu líftæknilyfja.

Fjárfesting Fuji Pharma nú styður við okkar framtíðarplön, en er ekki síður til marks um þá trú sem erlendir fjárfestar hafa á fyrirtækinu. Framundan eru spennandi tímar hjá Alvotech. Klínískar rannsóknir Alvotech eru að hefjast og fyrirtækið er vel fjármagnað til frekari vaxtar og bakland fyrirtækisins er traust.“

 

Hirofumi Imai, stjórnarformaður Fuji Pharma, segir í tilkynningu til Kauphallar í Tókýó að hann sé áhugasamur um að koma inn sem nýr fjárfestir í Alvotech, sem hafi vaxið hratt á undanförnum árum. Hann segist einnig hafa mikla trú á þróunarstarfi fyrirtækisins og framleiðslugetu og bíði þess með eftirvæntingu að taka sæti í stjórn Alvotech.

 

Stærstu hluthafar Alvotech eru Aztiq Pharma AB, Alvogen og Fuji Pharma. Róbert Wessman, forstjóri Alvogen og stofnandi Alvotech, leiðir hóp fjárfesta í gegnum fjárfestingafélagið Aztiq AB, sem er meirihlutaeigandi í Alvotech. Stærstu eigendur Alvogen eru tveir af stærstu fjárfestingasjóðum í heiminum í dag, CVC Capital Partners og Temasek, ásamt Astiq Pharma undir forrystu Róberts.

 

  • Alvotech tilkynnti í september um 22 milljarða samstarfssamning í Kína, þar sem fyrirtækið eignast helming í nýrri lyfjaverksmiðju sem verður reist þar í landi. Auk þess fær Alvotech beinan aðgang að næststærsta lyfjamarkaði heims.
  • Færustu vísindamenn landsins, auk erlendra sérfræðinga, hafa í sameiningu unnið að uppbyggingu hátækniseturs Alvotech í Vatnsmýrinni og búið til þá þekkingu sem þarf til þróunar og framleiðslu líftæknilyfja. Nýlega fékk Alvotech gæðavottun og framleiðsluleyfi frá Lyfjastofnun Íslands sem var mikilvægur áfangi fyrir fyrirtækið.
  • 250 vísindamenn hafa verið ráðnir til Alvotech frá stofnun fyrirtækisins fyrir fimm árum. Á árinu 2018 hafa verið ráðnir 60 vísindamenn sem vinna að því að þróa og framleiða hágæða líftæknilyf sem notuð eru til meðferðar á erfiðum sjúkdómum eins og gigt, psoriasis og krabbameini. Lyf fyrirtækisins eru væntanleg á alla stærstu lyfjamarkaði heims á árinu 2020 og síðar.