Róbert Wessman, forstjóri Alvogen og stofnandi og stjórnarformaður Alvotech var gestur MBA námsins í Háskóla Íslands á dögunum.
MBA-námið við Háskóla Íslands býður upp á metnaðarfullt og framsækið nám fyrir einstaklinga sem vilja efla þekkingu sína í stjórnun og rekstri. Það þótti því fengur að fá frumkvöðulinn Róbert Wessman í heimsókn en hann hefur undanfarin ár verið tíður gestafyrirlesari í alþjóðlegum viðskiptaháskólum á borð við Harvard og Columbia University.
Í erindinu Innsýn Frumkvöðuls, sagði Róbert frá sinni reynslu sem alþjóðlegur frumkvöðull og greindi frá vexti og velgengni fyrirtækjanna Alvogen og Alvotech á alþjóðlegum vettvangi. Alvogen hefur vaxið hratt undir forystu Róberts, eða frá því að vera árið 2009, lítið samheitalyfjafyrirtæki í Bandaríkjunum í að verða alþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi í 35 löndum. Róbert stofnaði líftæknifyrirtækið Alvotech árið 2013 og fyrsta skóflustungan að nýju hátæknisetri í Vatnsmýri var tekin sama ár. Í dag starfa hjá fyrirtækinu um tvö hundruð og fimmtíu vísindamenn á alþjóða vettvangi.
Í erindi sínu sagði Róbert frumkvöðla þurfa að hafa skýra sýn, trú og hugrekki til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.
Fjölmenni var á fundinum og almenn ánægja var með erindi Róberts meðal gesta sem héldu bjartsýnir út í daginn.