Bandaríski háskólinn Harvard Business School hefur gert nýtt greiningarverkefni (case study) um uppbyggingu Alvogen á heimsvísu. Þetta er í þriðja sinn sem Harvard fjallar um stjórnun og árangur Róberts Wessman og lyfjafyrirtækja undir hans stjórn. Á undanförnum árum hafa yfir eitt þúsund nemendur við skólann nýtt greiningarverkefnin í sínu námi.
RÓBERT WESSMAN FORSTJÓRI ALVOGEN
Greiningarverkefnið ber yfirskriftina: Alvogen; vöxtur í umhverfi frumkvöðla (Scaling Entrepreneurship). Róbert kynnti sögu fyrirtækisins nýlega í Harvard fyrir forstjóra og stjórn Adidas og fjölmörgum nemendum skólans. Á aðeins níu árum hefur Alvogen skipað sér í hóp stærstu samheitalyfjafyrirtækja heims og árstekjur fyrirtækisins eru nú vel á annað hundrað milljarðar króna og starfsemi þess í 35 löndum.
Höfundarnir, prófessorarnir Dan Isenberg og William R. Kerr, auk Alexis Browell, leituðust við að finna þrjú atriði sem réðu úrslitum um vöxt og árangur Alvogen. Niðurstaða þeirra voru eftirfarandi þættir: Fólkið, fyrirtækjamenningin og skipulagið. Rannsókn þremenningana sýndi einnig af hverju það er mikilvægt að halda í eldmóð frumkvöðulsins ef fyrirtæki á að þróast frá lausbeislaðri hugmynd að stöðugum rekstri í alþjóðlegu umhverfi.
Dan Isenberg prófessor sagði: „Endurtekinn árangur, sem Róbert Wessman og hans fólk hefur náð, fyrst hjá Actavis og nú hjá Alvogen, er gott dæmi um hvernig á að skora ráðandi markað á hólm og ná á toppinn í krafti hugsjóna, forystu, hópvinnu og sveigjanlegrar en þó agaðrar stjórnunar.“