Alvotech, systurfyrirtæki Alvogen, mun ráða í 50 fyrstu störfin við nýtt Hátæknisetur í Vatnsmýrinni á næstu mánuðum. Nú er auglýst eftir 35 háskólamenntuðum Íslendingum með raunvísindabakgrunn og fyrri hluta næsta árs verður ráðningum haldið áfram. Búast má við því að um 200 ný störf verði til í tengslum við starfsemina á næstu árum. Sækja má um ný störf hjá Alvotech á vefnum á slóðinni http://storf.alvotech.is.
Í nóvember 2013 hófust framkvæmdir við nýtt Hátæknisetur sem verður um 13 þúsund fermetrar að stærð. Innan Hátæknisetursins verður unnið að þróun og framleiðslu líftæknilyfja og áætlað er að húsið verði tekið í notkun í ársbyrjun 2016. Sex líftæknilyf eru nú í þróun hjá Alvotech í samvinnu við erlenda samstarfsaðila og fyrstu lyf fyrirtækisins fara á markað árið 2018 þegar einkaleyfi þeirra renna út. Lyfin eru háþróuð stungulyf og m.a. notuð við krabbameini og gigtarsjúkdómum. Sala frumlyfjanna á árinu 2013 á heimsvísu var um 15 milljarðar evra. Alvotech mun sjá um þróun og framleiðslu lyfjanna en Alvogen og önnur lyfjafyrirtæki munu sjá um markaðssetningu þeirra.
Heildarfjárfesting Alvotech á sviði líftæknilyfja er um 500 milljónir evra (75 milljarðar króna) á næstu árum, þar með talin fjárfesting á fullbúnu húsi (um 8 milljarðar króna). Stærsti hluti fjárfestingar er vegna þróunar- og rannsóknarkostnaðar og klínískra rannsókna. Fjárhæð fjárfestingarinnar er um tvöfalt hærri en kynnt var í nóvember 2013 og ræðst af því að ákveðið hefur verið að þróa fleiri lyf en upphaflega hafði verið áætlað. ÞG verktakar byggja húsið í samvinnu við PK arkitekta, Eflu verkfræðistofu og Lagnatækni. Alls munu skapast um 400 ársverk á framkvæmdatímanum.