Alvotech sem er systurfyrirtæki Alvogenog alþjóðlega lyfjafyrirtækið Stada Arzneimittel hafa gert samstarfssamning um þróun, framleiðslu og markaðssetningu sjö líftæknilyfja Alvotech á öllum helstu mörkuðum í Evrópu.
Samningur tryggir Stada markaðsleyfi fyrir lyf Alvotech þegar þau koma á markað. Umrædd lyf seljast fyrir rúmlega sex þúsund milljarða króna á ári á heimsvísu eða um 50 milljarða Bandaríkjadala og eru notuð notuð til meðferðar á erfiðum sjúkdómum, eins og t.d. gigt, psoriasis og krabbameini.
Peter Goldschmidt forstjóri Stada segir í tilkynningu að um sé að ræða einn stærsta samstarfssamning sem gerður hefur verið á þessu sviði í heiminum. Hann segir jafnframt ánægjulegt að geta aukið aðgengi sjúklinga að hágæða lyfjum, lækkað lyfjaverð og bætt lífsgæði sjúklinga með lyfjum Alvotech.
Mark Levick forstjóri Alvotech segir STADA mjög öflugan og traustan samstarfsaðila.