Háskóli Íslands og lyfjafyrirtækið Alvotech, systurfyrirtæki Alvogen, undirrituðu í dag samning sín á milli um aukið samstarf á sviði nýsköpunar, rannsókna og kennslu. Markmiðið með samningnum er að nýta sérþekkingu beggja aðila, tækni, krafta og aðstöðu eins og kostur í þágu nemenda og stafsmanna beggja aðila og samfélagsins alls.
Í samningnum er gert ráð fyrir að starfsfólki Alvotech, nemendum og starfsfólki Háskóla Íslands verði auðveldað aðgengi að mikilvægri sérfræðiþekkingu sem er til staðar innan fyrirtækisins og Háskólans. Ætlunin er að efla framgang vísindalegrar þekkingar á þeim fræðasviðum sem snúa að starfsemi Alvotech en fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknilyfja. Með samningnum verður leitað leiða fyrir þverfræðilegt samstarf í kennslu, rannsóknum og nýsköpun en báðir aðilar eru sammála um mikilvægi nýsköpunar fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag.
Með samkomulagi Háskóla Íslands og Alvotech er ætlunin að boða enn frekara samstarf milli aðilanna og verður sérstök nefnd stofnuð til að þróa leiðir til þess. Einnig er stefnt að því sérfræðingar Alvotech komi að kennslu við Háskólann.
Alvotech og Háskóli Íslands hafa starfað náið saman um nokkurt skeið en nýtt hátæknisetur Alvotech var opnað á háskólasvæðinu í júní 2016 innan Vísindagarða Háskóla Íslands. Innan setusins starfa nú um 200 vísindamenn sem vinna að þróun, framleiðslu og markaðssetningu líftæknilyfja. Innan Vísindagarðanna starfar Alvotech í náinni samvinnu við fræðasvið og deildir Háskóla Íslands.
Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech sagði ánægjulegt að auka enn frekar samvinnu fyrirtækisins við háskólasamfélagið þar sem aðilar vinni saman að því að móta og þróa menntun fyrir vísindamenn framtíðarinnar.