SKRIFAÐ 21.10.2015
Alvogen vann til verðlauna á alþjóðlegri lyfjasýningu í Madrid í síðustu viku. Það var alþjóðlega fagtímaritið Generics Bulletin sem stóð fyrir verðlaununum. Alvogen fékk fjórar tilnefningar af 13 sem í boði voru og hlaut verðlaun fyrir Fyrirtæki ársins í Evrópu fyrir uppbyggingu sína í Mið- og Austur Evrópu, meðal annars fyrir markaðssetningu á fjölmörgum líftæknilyfjum.
RÓBERT WESSMAN FORSTJÓRI ALVOGEN ÁSAMT LYKILSTJÓRNENDUM FYRIRTÆKISINS Í EVRÓPU
Alvogen hefur vaxið hratt á helstu mörkuðum á svæðinu og þá sérstaklega í Rússlandi þar sem fyrirtækið keypti nýlega fimm hormónalyf af lyfjafyrirtækinu Bayer. Þetta er í annað sinn sem Alvogen er verðlaunað af tímaritinu en á síðasta ári hlaut fyrirtækið verðlaun sem Fyrirtæki ársins í Bandaríkjunum og fyrir Viðskiptaþróunarverkefni ársins í Evrópu.
Á lyfjasýningunni (CPhI) voru samankomin öll stærstu lyfjafyrirtæki heims og um 40,000 gestir. Sýningin stóð í þrjá daga en um 45 lykilstarfsmenn Alvogen og dótturfyrirtækja áttu fundi með samstarfsfyrirtækjum og kynntu vörur og þjónustu.
Alvogen hlaut mikið lof fyrir sýningarbás sinn sem var um 300 fermetrar að stærð og var byggður af starfsmönnum fyrirtækisins á Íslandi. Líkt og síðustu ár skoraði Alvogen á samstarfsfyrirtæki sín í keppni, nú í golfhermi sem komið var fyrir á sýningarbásnum. Spilað var á einum sögufrægasta golfvelli heims, St. Andrews í Skotlandi, þar sem sigurvegari keppninar fór holu í höggi.
Róbert Wessman forstjóri Alvogen segir þátttöku í sýningunni mikilvæga fyrir markaðssetningu fyrirtækisins á heimsvísu.