Framkvæmdir við Hátæknisetur Alvogen í Vatnsmýrinni hófust í dag. Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, tóku fyrstu skóflustungurnar. Hátæknisetrið mun hýsa alþjóðlegar skrifstofur Alvogen og þróunarsetur líftæknilyfja.
400 ársverk skapast á framkvæmdatímanum – 200 ný framtíðarstörf verða til hjá Alvogen
Framkvæmdir við Hátæknisetur Alvogen í Vatnsmýrinni hófust í dag. Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, tóku fyrstu skóflustungurnar. Hátæknisetrið mun hýsa alþjóðlegar skrifstofur Alvogen og þróunarsetur líftæknilyfja. Búist er við að árlegar tekjur af starfsemi Alvogen á Íslandi verði um 65 milljarðar króna þegar fyrstu líftæknilyf félagsins fara á markað á árinu 2019 og um 200 ný framtíðarstörf verða til hjá félaginu. Starfsemi Alvogen verður samofin háskólasamfélaginu í Vatnsmýri og nær þannig að styðja við og nýta sér rannsóknir og framhaldsmenntun, m.a. á sviði lífvísinda, lyfjaþróunar, viðskiptaþróunar og verkfræði.
Hátæknisetur Alvogen verður reist við Sæmundargötu 15-19, innan Vísindagarða Háskóla Íslands, og verður um ellefu þúsund fermetrar að stærð. Heildarfjárfesting Alvogen vegna verkefnisins er áætluð um 25 milljarðar króna, þar með talin uppbygging á aðstöðu á Íslandi fyrir um 8 milljarða króna (fullbúið hús). Um 400 ársverk munu skapast á rúmlega tveggja ára framkvæmdatíma en auk þess er búist við að 200 ný stöðugildi muni skapast til framtíðar hjá Alvogen á Íslandi á næstu árum. Erlendir lykilstjórnendur hafa verið ráðnir til að leiða markaðssókn Hátækniseturs Alvogen á alþjóðlegum mörkuðum og yfirgnæfandi meirihluti nýrra starfsmanna verður háskólamenntaðir Íslendingar. Íslenskir aðalverktakar hafa verið valdir til að sjá um jarðvinnu og samið verður við stýriverktaka verkefnisins á næstu vikum.
Í Hátæknisetri Alvogen er fyrirhugað að þróa og framleiða samheitalyfjaútgáfu líftæknilyfja sem eru nú þegar á markaði og markaðssetja þau þegar einkaleyfi þeirra renna út. Lyfin eru öll í hópi söluhæstu lyfja í heiminum í dag og seljast fyrir tugi milljarða Bandaríkjadala á ári. Umrædd lyf, sem verða þróuð og framleidd hjá Alvogen, eru árangursrík við ákveðnum alvarlegum sjúkdómum, m.a. krabbameini og gigtarsjúkdómum. Líftæknilyf Alvogen verða seld á öllum stærstu lyfjamörkuðum heims í gegnum sölunet félagsins og búast má við að með tilkomu samheitalyfjanna lækki söluverð þessara lyfja umtalsvert. Fyrstu lyf Alvogen koma á markað árið 2019 en starfsemi Hátæknisetursins mun hefjast í ársbyrjun 2016. Alvogen hóf sölu líftæknilyfja á mörkuðum í Mið- og Austur-Evrópu fyrir um tveimur árum í samstarfi við stórt alþjóðlegt líftæknifyrirtæki. Fyrir rúmlega ári hóf fyrirtækið sína eigin þróun í samstarfi við svissneskt þróunarfyrirtæki og mun sú starfsemi flytjast til Íslands þegar Hátæknisetrið verður formlega tekið í notkun.