- 80 starfsmenn hafa verið ráðnir frá árinu 2010 þegar starfsemi Alvogen hófst á Íslandi
- Yfir 50 ný störf skapast á árinu 2015 fyrir háskólamenntaða Íslendinga
- Framkvæmdum við nýtt Hátæknisetur lýkur fyrri hluta árs 2016
Alls hafa 30 háskólamenntaðir raunvísindamenn verið ráðnir til starfa á þessu ári hjá Hátæknisetri systurfyrirtækjanna Alvogen og Alvotech sem nú rís innan Vísindagarða Háskóla Íslands. Búist er við að ráðnir verði að minnsta kosti 20 raunvísindamenn til viðbótar á árinu 2015. Alls hafa um 80 starfsmenn verið ráðnir til systurfyrirtækjanna, frá því Alvogen hóf starfsemi á Íslandi árið 2010.
Í nóvember 2013 hófust framkvæmdir við nýtt Hátæknisetur sem verður um 13 þúsund fermetrar að stærð. Innan setursins verður unnið að þróun og framleiðslu líftæknilyfja og áætlað er að húsið verði tekið í notkun í ársbyrjun 2016. Systurfyrirtækin Alvogen og Alvotech verða bæði með aðstöðu í Hátæknisetrinu. Sex líftæknilyf eru nú í þróun hjá Alvotech í samvinnu við erlenda samstarfsaðila og fyrstu lyf fyrirtækisins eru væntanleg á markað frá árinu 2018 þegar einkaleyfi þeirra renna út.
Alvogen hefur selt líftæknilyf á mörkuðum sínum í Mið og Austur Evrópu í rúm tvö ár og er vel í stakk búið til að hefja sölu lyfja Alvotech þegar þau koma á markað. Hlutverkaskipti systurfyrirtækjanna eru þannig að Alvotech sér um þróun og framleiðslu lyfjanna og Alvogen markaðssetur þau á sínum mörkuðum. Alvotech mun þó einnig vinna með öðrum lyfjafyrirtækjum á þeim stöðum þar sem Alvogen er ekki með starfsemi.
Nánar um störf í boði hjá Alvotech á slóðinni http://storf.alvotech.is.