Skip Navigation

100 vísindamenn óskast!

People
16 May 2019

Alvotech, systurfyrirtæki Alvogen leitar nú að 100 vísindamönnum og sérfræðingum til að taka þátt í uppbyggingu leiðandi lyfjafyrirtækis á heimsvísu. Hjá Alvotech starfa nú 330 vísindamenn í hátæknisetri fyrirtækisins á Íslandi, í Sviss og í Þýskalandi af um 20 þjóðernum. Þau störf sem nú eru auglýst til umsóknar eru aðallega miðuð að einstaklingum með háskólamenntun á sviði líf-, raun- og lyfjavísinda eða verkfræði.

Alvotech lauk nýlega 36 milljarða króna fjármögnum með erlendum fjárfestum og japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma gerðist hluthafi í fyrirtækinu með sex milljarða króna fjárfestingu. Fyrirtækið er því vel fjármagnað og undirbúið fyrir áframhaldandi vöxt.

Róbert Wessman stofnandi og stjórnarformaður Alvotech segir ánægjulegt að sjá hvernig fyrirtækið hefur vaxið og dafnað á stuttum tíma.

„Uppbygging fyrirtækisins hefur gengið vel og nú er komið að ákveðnum tímamótum hjá okkur. Í ljósi þess hversu vel hefur gengið í okkar þróunarstarfi og undirbúningi fyrir markaðssetningu lyfja Alvotech þurfum við að styrkja innviði fyrirtækisins enn frekar. Hundrað nýir háskólamenntaðir vísindamenn og sérfræðingar verða ráðnir á þessu ári og það má vel hugsa sér að umsvif okkar og fjárfesting í íslensku efnahagslífi aukist enn frekar á næstu misserum.“

Róbert Wessman

Stofnandi og stjórnarformaður Alvotech

Alvotech vinnur að þróun og framleiðslu líftæknilyfja sem eru notuð til meðferðar á erfiðum sjúkdómum eins og t.d. og gigt, psoriasis og krabbameini. Þróunar- og framleiðslusetur fyrirtækisins á Íslandi er búið fullkomnustu tækjum og búnaði og hefur fyrirtækið nú þegar fengið framleiðsluleyfi og gæðavottun. Hátæknisetrið er hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni og er um 13 þúsund fermetrar að stærð.

Setrið var formlega opnað í júní 2016 og er Alvotech í nánu samstarfi við háskólasamfélagið um mótun menntunar á sviði líftækni og lyfjavísinda ásamt ýmsum öðrum verkefnum. Markmið fyrirtækisins er að auka lífsgæði sjúklinga um allan heim með þróun og framleiðslu nýrra líftæknilyfshliðstæðna (e.biosimilars) sem koma á markað þegar einkaleyfi renna út.

STÖRF Í BOÐI

Þau störf sem nú eru í boði eru fjölbreytt og starfsreynsla og hæfniskröfur eru mismunandi. Þannig geta bæði efnilegir vísindamenn og reyndir sérfræðingar sótt um störf á sínu áhugasviði. Talsvert af störfum eru fyrir ungt og metnaðarfullt fólk með góðan bakgrunn og mikinn drifkraft sem hefur áhuga til að starfa undir leiðsögn sérfræðinga Alvotech.

Sótt er um störfin á sérstakri umsóknarsíðu storf.alvotech.is