Presmin Combo

Presmin Combo er samsett lyf og inniheldur virku efnin lósartan og hýdróklórtíazíð. Lósartan er angíótensín II blokki og hýdróklórtíazíði sem er þvagræsilyf. Angíótensín II er efni sem er framleitt í líkamanum og binst við viðtaka í æðum, sem veldur því að þær þrengjast. Þetta veldur því að blóðþrýstingur hækkar. Lósartan kemur í veg fyrir að angíótensín II bindist við þessa viðtaka, sem veldur því að það slaknar á æðunum sem gerir það að verkum að blóðþrýstingur lækkar. Hýdróklórtíazíð vinnur að því að nýrun útskilja meira af vökva og salti. Þetta hjálpar einnig til við að lækka blóðþrýsting.

Sýnt hefur verið fram á að virku efnin í Presmin Combo hafa samlegðaráhrif til lækkunar blóðþrýstings og lækka þannig blóðþrýsting meira en hvort efni fyrir sig. Þessi áhrif eru talin vera vegna samverkandi áhrifa beggja efnisþátta. Ennfremur eykur hýdróklórtíazíð renínvirkni í plasma og seytun aldósteróns, veldur kalíumlækkun í sermi og eykur styrk angíóteníns II, vegna þvagræsiáhrifa sinna. Með gjöf lósartans verður hömlun á allri lífeðlisfræðilegri mikilvægri verkun angíótensíns II og vegna aldósterón-hamlandi áhrifa gæti það unnið gegn kalíumtapinu sem verður af völdum þvagræsilyfsins.

Sýnt hefur verið fram á að lósartan veldur vægri og tímabundinni þvagsýrumigu. Hýdróklórtíazíð veldur í meðallagi mikilli hækkun á þvagsýru í blóði; samsetning lósartans og hýdróklórtíazíðs virðist geta dregið úr þvagsýruhækkun í blóði af völdum þvagræsilyfja.

Blóðþrýstingslækkandi áhrif Presmin Combo vara í 24 klukkustundir.

Ábendingar:

  • Presmin Combo er ætlað til meðferðar á háþrýstingi (essential hypertension) hjá sjúklingum þegar hvorki hefur náðst nægileg stjórn á blóðþrýstingi með lósartani eða hýdróklórtíazíði einum sér.

Frábendingar:

  • Ofnæmi fyrir lósartani, súlfónamíðafleiðum (svo sem hýdróklórtíazíði) eða einhverju hjálparefnanna
  • Blóðkalíumlækkun eða blóðkalsíumhækkun sem ekki svara meðferð
  • Alvarlega skert lifrarstarfsemi: Gallteppa og gallteppukvillar
  • Óviðráðanleg blóðnatríumlækkun. • Þvagsýrudreyri/þvagsýrugigt með einkennum
  • Annar og síðasti þriðjungur meðgöngu
  • Alvarlega skert nýrnastarfsemi (þ.e. kreatínín úthreinsun <30 ml/mín.)
  • Þvagþurrð
  • Ekki má nota Presmin Combo samhliða lyfjum sem innihalda aliskiren hjá sjúklingum með sykursýki eða skerta nýrnastarfsemi (GFR <60 ml/mín./1,73 m2 )

Markaðsleyfishafi: Alvogen ehf

Ítarupplýsingar

Tegund lyfs
C09DA - Angíótensín II blokkar í blöndum með þvagræsilyfjum
Virkt innihaldsefni
Lósartankalíum og hýdróklórtíazíð
Lyfjaform
Filmuhúðaðar töflur
Styrkleiki
50/12,5, 100/25 mg
Magn
98 stk.

Upplýsingar um aukaverkanir, milliverkanir, varnaðarorð og önnur mikilvæg atriði má nálgast í sérlyfjaskrá

PRO.R.2021.0001.01

Pakkningar

VörunúmerStyrkurMagn
10363362,5 mg98 stk.
103642125 mg98 stk.