Presmin
Presmin inniheldur virka efnið lósartan. Lósartan tilheyrir flokki lyfja sem nefnast angíótensín II blokkar. Angíótensín II er efni sem er framleitt í líkamanum og binst við viðtaka í æðum, sem veldur því að þær þrengjast. Þetta veldur því að blóðþrýstingur hækkar. Lósartan kemur í veg fyrir að angíótensín II bindist við þessa viðtaka, sem veldur því að það slaknar á æðunum sem gerir það að verkum að blóðþrýstingur lækkar. Lósartan dregur úr skerðingu á nýrnastarfsemi hjá sjúklingum með háan blóðþrýsting og sykursýki af tegund 2.
Lósartan hefur hvorki örvandi áhrif né blokkar það aðra hormónaviðtaka eða jónagöng sem eru mikilvæg í stýringu á hjarta- og æðakerfinu. Lósartan hamlar heldur ekki ACE (kínínasa II), ensíminu sem brýtur niður bradýkínín. Af þessu leiðir að engin aukning verður á bradýkínín miðluðum aukaverkunum.
Ábendingar:
- Meðferð við háþrýstingi (essential hypertension) hjá fullorðnum og börnum og unglingum 6-18 ára.
- Meðferð við nýrnasjúkdómi hjá fullorðnum sjúklingum með háþrýsting og sykursýki af tegund 2 með prótein í þvagi >0,5 g/sólarhring sem hluti af meðferð við háþrýstingi.
- Meðferð við langvinnri hjartabilun hjá fullorðnum sjúklingum þegar meðferð með ACE-hemlum er ekki lengur talin henta vegna ósamrýmanleika, sérstaklega hósta eða frábendingar. Ekki er mælt með að skipta yfir í meðferð með lósartani ef náðst hefur jafnvægi hjá sjúklingum með hjartabilun á ACE-hemli. Sjúklingar eiga að hafa útfall vinstri slegils <40% og vera í klínísku jafnvægi í viðurkenndri meðferð við langvinnri hjartabilun.
- Til að draga úr hættu á heilablóðfalli hjá sjúklingum með háþrýsting og þykknun vinstri slegils staðfest með hjartalínuriti.
Frábendingar:
- Ofnæmi fyrir virka efninu eða einhverju hjálparefnanna
- Annar eða síðasti þriðjungur meðgöngu
- Alvarlega skert lifrarstarfsemi
- Ekki má nota Presmin samhliða lyfjum sem innihalda aliskiren hjá sjúklingum með sykursýki eða skerta nýrnastarfsemi (GFR <60 ml/mín./1,73 m2 )
Markaðsleyfishafi: Alvogen ehf
Ítarupplýsingar
- Tegund lyfs
- C09CA - Angíótensín II blokkar, óblandaði
- Virkt innihaldsefni
- Lósartan
- Lyfjaform
- Filmuhúðaðar töflur
- Styrkleiki
- 50 mg
- Magn
- 98 stk.
Upplýsingar um aukaverkanir, milliverkanir, varnaðarorð og önnur mikilvæg atriði má nálgast í sérlyfjaskrá